Hér er um afar áhugaverða og fallega skáldsögu að ræða sem gerist í kringum 1920 á Englandi og segir frá því þegar foringi í breska hernum kemur heim eftir að hafa tekið þátt í fyrri heimsstyrjöldinni. Þá uppgötvar hann að konan hans hefur farið frá honum en skilið son þeirra eftir í hans umsjá. Ofan á þetta kemur hann alls staðar að lokuðum dyrum er hann leitar að vinnu til að sjá sér og syni sínum farborða. En þrátt fyrir þessi áföll er Sorrell þessi staðráðinn í að koma syni sínum til manns og veita honum bestu fáanlegu menntun sem hann sjálfur hafði farið á mis við.
Sagan þykir veita einstaka innsýn í breskt samfélag þess tíma og höfundur þykir fanga stéttaskiptinguna, fátæktina og baráttu kvenna á þessum árum af stakri snilld. Það verður enginn ósnortinn af þessari sögu. Sagan naut á sínum tíma mikilla vinsælda og gerðar hafa verið eftir henni tvær kvikmyndir og sjónvarpssería.
Warwick Deeping (1877-1950) var enskur rithöfundur sem naut gríðarlegra vinsælda á árunum frá 1920-1930. Hann var læknir að mennt eins og báðir foreldrar hans og starfaði sem slíkur, en skömmu eftir að hann kom heim frá þátttöku sinni í fyrri heimsstyrjöldinni hætti hann lækningum og sneri sér alfarið að skrifum.
Á íslensku kom sagan fyrst út árið 1944 í þýðingu Helga Sæmundssonar en það er sonur hans, Sigurður Helgason, sem les.
Smelltu hér til að sækja hljóðbókina fyrir iTunes eða önnur sæmbærileg öpp fyrir almennar tölvur.
Smelltu hér til að sækja hljóðbókina fyrir iTunes eða önnur sæmbærileg öpp fyrir spjaldtölvur og snjallsíma.
Lengd : 08:51:17 510,7 MB