Ritstjórinn mælir með:

Topp 10 bækur

Þýddar smásögur

Á hlusta.is er gríðarlegt magn af frábærum smásögum sem sniðugt er að kynna sér. Til að hjálpa þeim sem vilja kynna sér þær nánar hefur ritstjóri okkar tínt til tíu sögur til að koma nýjum hlustendum á bragðið. Hvetjum við ykkur til að hlusta.

mínútur
8

Saga um klukkustund (The Story of an Hour) eftir bandarísku skáldkonuna Kate Chopin (1850-1904) er stórkostleg saga sem hún skrifaði 19. apríl árið 1894. Segir þar frá konunni Louise Mallard sem fréttir að maður hennar sé dáinn. Þykir sagan þó stutt sé gefa innsýn inn í líf og reynsluheim kvenna á árum áður og tekur fyrir þemu eins og frelsi og fjötra. Er hún víða kennd til að sýna smásöguna þar sem hún rís hæst í listfengi sínu. Frábær saga. 

Sigurður Arent Jónsson les.

mínútur
10

Émile Gaboriau (1832-1873) var franskur rithöfundur og blaðamaður. Sérstaklega þótti honum takast vel upp í smásögum sínum. Þá er hann talinn einn af frumkvöðlum leynilögreglusagna og byggði hann helsta spæjarann sinn, Monsieur Leqoc, á þjófinum fræga sem síðar gerðist lögreglumaður, Eugéne Francois Vidocq. Sagan Dularfulla húsið er talin með hans áhugaverðustu sögum, en þar sýnir hann okkur á stórskemmtilegan hátt ýmsar mótsagnir þessa heims.

mínútur
323

Spæjarann Sherlock Holmes þekkja flestir. Í þessari bók býður hann okkur upp á frábærar smásögur um þennan ofurspæjara. Eru það sögurnar: Auða húsið (49 mín.), Húsmeistarinn frá Norwood (59 mín.), Dansmennirnir (53 mín.), Maðurinn á reiðhjólinu (47 mín.), Skólasveinninn sem hvarf (70 mín.) og Svarti-Pétur (48 mín.) Allt stórskemmtilegar sögur.

mínútur
23

Nýsjálenski rithöfundurinn Katherine Mansfield (1888-1923) var helst kunn fyrir smásögur sínar og vilja margir meina að sögur hennar séu enn með bestu smásögum sem skrifaðar hafa verið. Sagan Sjóferðin (The Voyage) kom fyrst út árið 1921. Í henni segir frá ungu stúlkunni Fenellu sem ásamt ömmu sinni tekur sér fari með skipi, því hún á að búa með ömmu sinni og afa í óákveðinn tíma vegna erfiðra aðstæðna. Sagan, sem sjálf er áhugaverð í alla staði, er sérstaklega eftirtektarverð fyrir þær sakir að hún er sögð með sjónum barnsins og allt líkingamálið miðast við barnið. Hafði síkt stílbragð ekki tíðkast áður.

Ólöf Rún Skúladóttir les.

mínútur
39

Þessa skemmtilegu smásögu skrifaði Victor Hugo árið 1834. Sagan er talin með fyrri nútíma sakamálasögum og þar reifar Hugo í fyrsta sinn álit sitt á því samfélagslega óréttlæti sem hann sá allt í kringum sig og gerði betri skil þrjátíu árum síðar í hinni kunnu sögu Vesalingarnir (Les Miserables). Charles Cartier, kaupmaður og ritstjóri, þótti svo mikið til boðskapar sögunnar koma að hann sendi hana öllum lögreglufulltrúum Parísarborgar til lestrar.

mínútur
14

Sagan Silkisokkaparið eftir snillinginn Kate Chopin (1850-1904) kom fyrst út í tímaritinu Vogue árið 1897, en ástæða þess að Chopin sendi þeim söguna var sú að tímaritið leyfði kvenrithöfundum að skrifa sögur sem tengdust reynsluheimi kvenna, sem ekki var algengt þá. Segir í sögunni frá Frú Sommers sem vill heldur eyða því litla sem hún á í sig sjálfa frekar en börnin. Silkisokkarnir í sögunni eru í raun tákn fyrir það tilgangslausa prjál sem Sommers notar til að fjarlægjast það tilbreytingarsnauða og innihaldslitla líf sem hún lifir.

Ólöf Rún Skúladóttir les.

mínútur
29

Áhugaverð saga um virðulegan lögfræðing sem hefur verið undir miklu álagi en verður þá allt í einu fyrir því að hann missir minnið og vitneskjuna um hver hann er. Til að ráða fram úr því ákveður hann að taka sér nafn úr auglýsingu. Og síðan leiðir eitt af öðru. Hér er á ferðinni stórskemmtileg saga eftir snilling smásagna O´Henry.

Björn Björnsson les.

mínútur
27

Selma Lagerlöf (1858-1940) var sænskur rithöfundur, sem fyrst kvenna hlaut hin virtu bókmenntaverðlaun Nóbels (1909). Hún er kannski helst kunn á Íslandi fyrir sögurnar af Nilla Hólmgeirssyni, en aðrar sögur hennar eins og Gösta Berlings saga nutu einnig töluverðra vinsælda og voru mikið lesnar. Mikið var um að styttri sögur hennar væru þýddar og birtar í tímaritum.

Sagan Grafskrift er einmitt fengin úr tímaritinu Nýjum kvöldvökum frá árinu 1916. Tekur hún tæpan hálftíma í flutningi og endurspeglar marga bestu eiginleika Lagerlöf sem höfundar, en í þessari stuttu sögu nær hún að draga upp áhrifaríka mynd af samfélaginu og þeim tvískinnungi sem þar er víða að finna. Jafnframt því er þetta örlagasaga af bestu gerð.

mínútur
21

Karel Capek var tékkneskur rithöfundur sem skrifaði alls kyns skáldverk en er þó helst kunnur fyrir vísindaskáldskap sinn. Skáldsagan War with the Newts (1936) var mikið lesin og leikritið R.U.R. eða Rossum´s Universal Robots hlaut góðar undirtektir. Í því verki var orðið robot (vélmenni) fyrst kynnt til sögunnar. Var hann sjö sinnum tilnefndur til Nóbelsverðlauna í bókmenntum þó hann hlyti þau aldrei. Sagan Eyjan er ekki vísindaskáldsaga en hún segir frá manni frá Lissabon sem þrátt fyrir gott líf í Lissabon ákveður að rífa sig upp til að skoða heiminn.

mínútur
15

Presturinn á Bunuvöllum er bráðskemmtileg saga sem birtist í tímaritinu Iðunni einhvern tíma á árunum 1884-1888. Höfundur hennar er ókunnur. Sagan segir frá merkum presti á Bunuvöllum sem upplifir algjört áhugaleysi safnaðarins á guðstrú og kirkjunni. Hann ákveður að reyna að bæta úr þessu og er óhætt að hann fari ekki hefðbundna leið til. Sagan er bráðfyndin.