Ritstjórinn mælir með:

Þýddar dramatískar skáldsögur

Sumar hlustunarpakki

Það er nú einu sinni svo þegar jafn mikið efni er boði og er hér á Hlusta.is að þá getur verið erfitt að finna það efni sem er skemmtilegast. Við fórum því fram á það við ritstjórann að hann veldi þær bækur sem honum þykja áhugaverðastar til að hlusta á í sumar. Þetta er niðurstaða hans fyrir þýddar dramatískar skáldsögur.

mínútur
487

Skáldsagan Milljónaævintýrið eftir G. B. McCutcheon kom fyrst út árið 1902 og eftir henni hafa verið gerðar kvikmyndir og leikrit.

Hér segir frá Montgomery Brewster, ungum manni sem erfir eina milljón dollara eftir afa sinn. Stuttu síðar deyr ríkur og sérvitur frændi hans einnig og í ljós kemur að hann hefur arfleitt Brewster að sjö milljónum dollara, en með skilyrði þó. Ef Brewster vill hljóta arfinn verður hann að eyða allri upphæðinni sem hann erfði eftir afa sinn innan eins árs, án þess að segja nokkrum frá ástæðunni, en það reynist ekki svo auðvelt.

Guðmundur Ingi Kristjánsson les.

mínútur
662

Skáldsagan Ljósvörðurinn eftir Maria Susanna Cummins heitir á frummálinu The Lamplighter. Sagan kom fyrst út árið 1854 og varð strax gríðarlega vinsæl. Hér segir frá uppvexti munaðarlausu stúlkunnar Gertrude sem elst upp hjá ljósverðinum Trueman Flint.

Jóhannes Vigfússon þýddi.

Guðmundur Ingi Kristjánsson les.

mínútur
566

Leyndarmál hertogans er saga um ástir og örlög eftir enska rithöfundinn Charlotte M. Brame.

Hinn ungi hertogi af Castlemay er beittur miklum þrýstingi af móður sinni um að kvænast, en í fortíð hans býr leyndarmál sem kemur í veg fyrir að hún fái sínu framgengt.

Charlotte Mary Brame (1836-1884) skrifaði um það bil 130 skáldsögur yfir ævina og sá fjölskyldu sinni farborða með skrifum sínum. Í verkum hennar birtist ástin í sínum ýmsu myndum og sögusviðið er gjarnan sveitasetur á Englandi.

Kristján Róbert Kristjánsson les.

mínútur
311

Skáldsagan Maðurinn sem týndi sjálfum sér inniheldur allt sem góða og spennandi sögu þarf að prýða - óvæntar uppákomur, ævintýri og dulúð. Sagan heitir á frummálinu The Man Who Lost Himself og kom fyrst út árið 1918.

Hér segir frá herra Jones sem kemur til London í viðskiptahugleiðingum. Eftir að það tækifæri gengur honum úr greipum er hann auralaus og að því kominn að örvænta, en hittir þá mann nokkurn, með ófyrirséðum afleiðingum.

Þekktasta skáldsaga höfundarins er án efa The Blue Lagoon, en hún hefur nokkrum sinnum verið kvikmynduð.

Sigurður Arent Jónsson les.

mínútur
468

Seld á uppboði er spennandi og skemmtileg saga eftir snillinginn Charles Garvice, sem á sínum tíma naut gríðarlegrar hylli. Margar bóka hans voru þýddar á íslensku og urðu mjög eftirsóttar. Flestar sögur Garvice eru rómantískar spennusögur og í þeim geira var hann fremstur meðal jafningja. Þó svo að mörgum gagnrýnendum hafi ekki þótt mikið til bóka hans koma á sínum tíma eru menn að vakna til vitundar um gæði þessa afkastamikla rithöfundar í dag.

Ingólfur B. Kristjánsson les.