Ritstjórinn mælir með:

Íslenskar skáldsögur

Sumar hlustunarpakki

Það er nú einu sinni svo þegar jafn mikið efni er boði og er hér á Hlusta.is að þá getur verið erfitt að finna það efni sem er skemmtilegast. Við fórum því fram á það við ritstjórann að hann veldi þær bækur sem honum þykja áhugaverðastar til að hlusta á í sumar. Þetta er niðurstaða hans fyrir íslenskar skáldsögur.

mínútur
572

Sagan Arfleifð frumskógarins eftir Sigurð Róbertsson fjallar um nútímamanninn í umróti tuttugustu aldar og viðleitni hans til að halda í við framvindu tímans. Til þess þarf hann að tileinka sér gildismat velferðarþjóðfélagsins og afskrifa fortíðina. Svo stórstígur er hann í leit sinni að sífellt stærri nýlundum að hann telur sig nálægt því að leysa sjálfa lífsgátuna, en tapar oftar en ekki áttum, svo lausnin virðist fjarlægari en nokkru sinni fyrr.

Frábær saga eftir einn eftirminnilegasta höfund 20. aldar.

Guðmundur Ingi Kristjánsson les.

mínútur
523

Drottning rís upp frá dauðum er þriðja sögulega skáldsaga Ragnars Arnalds. Þar er skáldað inn í raunverulega atburði sem áttu sér stað seint á 13. öld og snerta Margréti dóttur Eiríks Noregskonungs. Varð hún átta ára gömul drottning Skotlands og hélt þá með skipi til Englands á fund væntanlegs brúðguma, Játvarðar, sem þá var krónprins af Englandi. Hún komst þó aldrei til Englands og var sagt að hún hefði dáið á leiðinni. Urðu til margar sögusagnir um þennan atburð og margar samsæriskenningar. Ragnar skoðar þessa sögu og skáldar upp eina skýringu. Er þetta skemmtileg og frumleg saga. Sagan kom fyrst út árið 2010.

Ingólfur B. Kristjánsson les.

mínútur
335

Sagan Gæfumaður eftir Einar Kvaran kom út árið 1933 og átti eftir að verða síðasta skáldsaga höfundar.

Í þessari skáldsögu úr Reykjavíkurlífinu eru fjórar aðalpersónur: Grímúlfur er nýorðinn efnaður kaupsýslumaður og fyrirmyndarborgari. Signý er saklaus sveitastúlka sem kemur til höfuðstaðarins til þess að menntast en verður óvart eftirsótt stjarna í skemmtanalífinu. Svo eru það Gerða, vinkona og hjálparhella Signýjar, og kvennabósinn Sigfús.

,,Sagan er ofin af mikilli nærfærni og er skemmtileg aflestrar,'' skrifar Sigurður Skúlason í ritdómi sínum um söguna í Skírni (1. tbl. 1933).

Guðmundur Ingi Kristjánsson les.

mínútur
234

Skáldsagan Meðan húsið svaf eftir Guðmund Kamban kom fyrst út á dönsku árið 1925 undir nafninu Det Sovende hus. Mun sagan upphaflega hafa verið hugsuð sem kvikmyndahandrit og var kvikmynduð í leikstjórn hans sjálfs árið 1926. Árið 1948 kom sagan fyrst út á Íslandi undir nafninu Meðan húsið svaf í frábærri þýðingu Katrínar Ólafsdóttur. Í einfaldri útfærslu má segja að sagan segi frá ungum hjónum, þeirra lífi, ástum og örlögum. En sagan er miklu flóknari en það og tekur á sérstæðan og afar næman hátt á breyskleika mannanna í varsömum heimi. Guðmundur nær í sögunni að tala inn í sinn samtíma en hann nær einnig að byggja upp stemningu sem hæfir viðfangsefninu sem er sígilt og ljær sögunni þannig líf langt út fyrir sína samtíð. Að mati undirritaðs er þetta besta og áhugaverðasta saga Kambans.

Ingólfur B. Kristjánsson les.

mínútur
514

Á bökkum Bolafljóts er ein af fyrri skáldsögum Guðmundar Daníelssonar, en hann lauk við að semja hana 28 ára gamall. Sagan kom fyrst út árið 1940 og var sú útgáfa þýdd á dönsku. Haustið 1955 endurskrifaði höfundur söguna og er það sú útgáfa sem hér birtist.

Kristján Róbert Kristjánsson les.

mínútur
617

Arfurinn: spennusaga um kjarkleysi og breyskleika eftir Borgar Jónsteinsson er fyrsta skáldsaga höfundar og kom fyrst út á bók árið 2014.

Hér fléttast saman saga af ungum íslenskum verkfræðingi sem gengur til liðs við nasistaflokkinn í Þýskalandi síðari heimsstyrjaldarinnar og saga sölumanns í Reykjavík sem ferðast til Argentínu í því skyni að vitja arfs eftir afa sinn sem hvarf af sjónarsviðinu við stríðslok.

Kristján Róbert Kristjánsson les.