Ritstjórinn mælir með:

Íslendingasögur og önnur fornrit

Sumar hlustunarpakki

Það er nú einu sinni svo þegar jafn mikið efni er boði og er hér á Hlusta.is að þá getur verið erfitt að finna það efni sem er skemmtilegast. Við fórum því fram á það við ritstjórann að hann veldi þær bækur sem honum þykja áhugaverðastar til að hlusta á í sumar. Þetta er niðurstaða hans fyrir íslendingasögur og önnur fornrit.

mínútur
114

Bárðar saga Snæfellsáss er talin rituð á fyrri hluta 14. aldar og telst því með yngri Íslendingasögum, enda má jafnvel segja að hún sé meira í ætt við riddarasögur og fornaldarsögur Norðurlanda. Hún segir frá Bárði Dumbssyni af ætt bergbúa, sem flýr Noreg og sest að undir Snæfellsjökli á Íslandi. Lendir hann í ýmsum ævintýrum en á endanum hverfur hann inn í jökulinn og gerist einn af landvættum Íslands. Sagan er sögð í ýkjustíl, en höfundi hennar tekst þó ótrúlega vel að halda í ákveðinn trúverðugleika og úr verður hin skemmtilegasta lesning.

Ingólfur B. Kristjánsson les.

mínútur
128

Þúsund og ein nótt er safn af sögum frá ýmsum höfundum og úr ýmsum ritum. Sögurnar eiga rætur að rekja til Arabíu, Indlands, Persíu, Egyptalands og Sýrlands meðal annars, allt frá fornöld til miðalda. Talið er að safnið sjálft megi rekja til 8. eða 9. aldar. Safnið er til í mörgum útgáfum en allar eiga þær það sameiginlegt að innihalda rammafrásögn um konunginn Sarjar og konu hans Sjerasade. Þekktustu sögurnar úr sagnasafninu eru sögurnar af Alí Baba, Aladdín og Sindbað sæfara. Sögurnar eru, eins og Íslendingasögurnar og kviður Hómers, hluti af sagnaarfi heimsins og ættu að vera hverjum manni hugleiknar og svo eru þær líka afar skemmtilegar. Í þessari fyrstu bók okkar er að finna innganginn sem leiðir okkur inn í þennan sagnaheim og sögukaflann sem ber yfirheitið Kaupmaðurinn og andinn.

Ingólfur B. Kristjánsson les.

mínútur
192

Finnboga saga ramma er ein af yngri Íslendingasögunum, talin rituð á fyrri hluta 14. aldar. Sögusvið hennar er á Flateyjardal í Suður-Þingeyjarsýslu og víðar á Íslandi. Þá færist sagan um tíma til Noregs.

Sagan greinir frá ævi og uppvexti Finnboga Ásbjarnarsonar sem fæddist á Eyri í Flateyjardal á 10. öld. Faðir hans var stórbóndinn Ásbörn dettiás. Nýfæddur var Finnbogi borinn út en Gestur og Syrpa, ábúendur á Tóftum í Flateyjardal, fundu hann þar sem hann lá reifaður í urð, og ólu hann upp. Var hann í fyrstu kenndur við fundarstaðinn og nefndur Urðarköttur. Nafnið Finnbogi hlaut hann eftir að hafa bjargað manni þeim úr sjávarháska er Finnbogi hét, en sá gaf upp öndina og gaf Urðarketti nafn sitt að launum fyrir björgunina.

Viðurnefnið „hinn rammi“ hlaut hann vegna líkamlegs atgervis síns. Hann var vígamaður og drap marga menn, bæði á Íslandi og í Noregi. Er sagan bæði viðburðarík og skemmtileg.

Ingólfur B. Kristjánsson les.

mínútur
193

Flóamanna saga er talin hafa verið rituð í kringum 1300. Hefur hún varðveist í tveimur útgáfum sem eru nokkuð frábugðnar hvor annarri. Við lesum hér styttri útgáfuna sem varðveist hefur í heild sinni en bætum við í viðauka þeim köflum úr lengri útgáfunni sem varðveist hafa. Sögusviðið er í kringum Gaulverjabæ á Suðurlandi en leikar berast til Noregs, Bretlands og allt til Grænlands. Segja má að sagan spanni fjórar kynslóðir en einkum er þetta þó saga Þorgils Örrabeinsstjúps sem er á margan hátt dæmigerð íslensk hetja. Margar kunnar persónur úr öðrum sögum koma fyrir í sögunni, s.s. Ingólfur Arnarson og fóstbróðir hans Leifur, Eiríkur rauði og Ásgrímur Elliða-Grímsson. Sagan er ágætlega uppbyggð og sérstaklega þykir frásögnin um dvölina á Grænlandi áhrifamikil og nokkuð raunsönn. Þetta er skylduhlustun fyrir alla unnendur Íslendingasagna.

Ingólfur B. Kristjánsson les.