Ritstjórinn mælir með:

Bækur á ensku

Sumar hlustunarpakki

Það er nú einu sinni svo þegar jafn mikið efni er boði og er hér á Hlusta.is að þá getur verið erfitt að finna það efni sem er skemmtilegast. Við fórum því fram á það við ritstjórann að hann veldi þær bækur sem honum þykja áhugaverðastar til að hlusta á í sumar. Þetta er niðurstaða hans fyrir bækur á ensku.

mínútur
274

Í skáldsögunni A Study in Scarlet komu Sherlock Holmes og Dr. Watson fyrst fram á sjónarsviðið, en samtals skrifaði Conan Doyle fjórar skáldsögur og 56 smásögur um spæjarann snjalla. Sagan kom fyrst út árið 1887 í tímaritinu Beeton's Christmas Annual.

David Clarke les á ensku.

mínútur
715

Sakamálasagan The Leavenworth Case: A Lawyer's Story kom fyrst út árið 1878 og var fyrsta skáldsaga höfundar. Sagan varð strax metsölubók og hafði mikil áhrif á þróun sakamálasagna, enda kom hún út níu árum áður en fyrsta sagan um Sherlock Holmes leit dagsins ljós. Sjálf Agatha Christie nefndi The Leavenworth Case sem áhrifavald á sín eigin skrif.

Sögusviðið er New York-borg. Horatio Leavenworth, fyrrum kaupmaður, finnst myrtur á heimili sínu. Grunur fellur á ungar frænkur hans tvær, en önnur þeirra á að erfa öll hans auðæfi. Rannsóknarlögreglumaðurinn Ebenezer Gryce er kallaður til og kemst fljótt að því að ekki er allt sem sýnist í fyrstu.

Kevin Green les á ensku.

mínútur
1696

Sagan Barnaby Rudge: A Tale of the Riots of Eighty eftir Charles Dickens er söguleg skáldsaga sem birtist fyrst á prenti árið 1841.

Mil Nicholson les á ensku.

 

mínútur
450

Huntingtower eftir skoska rithöfundinn John Buchan er fyrsta bókin af þremur um Dickson McCunn, miðaldra fyrrum kaupmann sem verður ólíkleg hetja. Sögusviðið er nálægt Carrick í suðvesturhluta Skotlands árið 1920 eða svo. Rússnesk aðalskona hefur verið ranglega hneppt í fangelsi í Skotlandi og upphefst þá hildarleikur þar sem njósnir og samsæri koma við sögu.

Simon Evers les á ensku.

mínútur
19

The Bet eða Veðmálið er smásaga eftir Anton Chekhov. Hér segir frá bankastarfsmanni og ungum lögfræðingi sem veðja sín á milli um það hvort dauðarefsing sé betri eða verri en lífstíðarfangelsi. Sagan kom fyrst út árið 1889. 

Anton Chekov (1860‐1904) var rússneskur smásagnahöfundur, leikritaskáld og læknir. Hann var gríðarlega vinsæll í Rússlandi meðan hann lifði og er enn í dag eitt af stóru nöfnunum í rússneskum bókmenntum. Vilja margir meina að Chekov sé einn fremsti smásagnahöfundur sem uppi hafi verið. Stíll hans er oftast látlaus, en styrkur hans felst einkum í því sem hann velur að segja og kannski enn frekar í þögnunum og því sem hann velur að segja ekki.

Alan Davis Drake les á ensku.

mínútur
858

Jane Austen hóf að skrifa söguna Mansfield Park árið 1811, en hún kom út á bók árið 1814. Hér segir frá stúlkunni Fanny Price, sem segja má að sé nokkurs konar Öskubuska, en hún elst upp á fátæku heimili, en gefst svo það óvænta tækifæri að flytja til ríkra skyldmenna sinna sem búa á Mansfield Park setrinu. Söguhetjan Fanny ber uppruna sínum merki, en nær þó að fóta sig í heimi hinna betur megandi, þó eftir nokkur feilspor. Í sögunni leggur Austen mikið upp úr mannlegri breytni útfrá siðfræði, pólitík og trú. Viðhorfin til þeirra þátta eru á margan hátt íhaldssamari en í öðrum sögum hennar.

Karen Savage les á ensku.